30.10.2009 | 14:33
Þvílík vika
Þriðjudagurinn 13. október hófst bara eins og aðrir virkir dagar hjá mér, ég vaknaði kl. hálf átta, vakti Júlíus, gaf honum morgunverð, gerði hann klárann í skólann og kom honum í skólarútuna. Síðan vaknaði Eyrún litla og knúsuðumst við fram að hádegislúrinum. Þá settist ég niður og dundaði mér við að hekla þar til Júlíus kom heim með skólarútunni um tvö leytið. Þá eru menn orðnir SVO SVANGIR að ekki þýðir að hlýða yfir lesturinn fyrr en búið er að fæða drenginn. ÞÁ er lesið og það þrisvar! :) Enda er hann orðinn rosalega duglegur að lesa.
Eftir lesturinn var Eyrún vöknuð og Júlíus búinn að læra svo hann fékk að fara út að leika sér með nokkrum drengjum og einni dömu (auðvitað, alltaf ein stelpa með öllum strákunum). Nú undanfarna daga hafa þau verið í byggingarframkvæmdum í garðinum, verið að reisa lítinn kofa. Tveir veggir úr litlum múrsteinum, einn er girðing (sem er utan um leikvöll í miðjum garðinum) og eitt hornið er ösp. Ekki hægt að segja annað en að krakkarnir nýti það sem til er! Nú svo var komið þak úr einhverjum spýtum sem krakkarnir höfðu safnað saman og lagt yfir grunninn milli girðingarinnar, annars vegar og asparinnar, hins vegar (ekki mjög stabílt en dugði í blíðskaparveðri). Nú verð ég að taka það fram að kofinn var ansi flottur hjá þeim en því miður þvarr byggingarefnið þar sem krakkarnir "fundu" ekki fleiri litla hellusteina svo nú voru góð ráð dýr. Tveir eldri drengjanna dóu þó ekki ráðalausir og fundu grjót sem þeir bogruðust með að byggingarsvæðinu, nú gátu framkvæmdirnar haldið áfram en því miður réðu ekki yngri strákarnir jafn vel við grjótið og þegar Júlíus og annar drengur voru að rogast með steinanna þá missir hinn drengurinn takið og hnullungurinn lendir ofan á fingrinum hans Júlíusar. Nú hefði maður búist við því að heyra öskur en nei, ekki Júlíus, hann kippir puttanum að sér segir strákunum að hann þurfi að fara inn og það er ekki fyrr en hann er kominn á efstu hæð að við heyrum í honum og er hann þá farinn að hágráta, enda puttinn kraminn. Einnig má þess geta að blóðslóðina mátti vel merkja á leið hans til okkar. Ég sá strax að puttinn var brotinn og vorum við Júlíus komin upp á slysó innan við 10 mínútum frá því slysið varð, þetta var um sjö leytið um kvöldið en vegna anna á slysó var brotið ekki rétt fyrr en rúmum þremur tímum seinna. Við Júlíus komum heim rétt fyrir miðnætti og fingurinn í gypsi. Sem betur fer var þetta hægri vísifingur þar sem Júlíus er örvhentur.
Nú á meðan Júlíus var að jafna sig á miðvikudegi var Lára Dröfn að ná sér í ofnæmisútbrot sem reyndar uppgötvuðust ekki fyrr en á fimmtudagsmorgni og var hún þá öll orðin rauðblettótt, á höndum, fótum, kvið og síðum, þegar hún var verst var hún einnig með roða í andliti. Nú þá var ekki annað hægt en að fara með hana á Heilsugæsluna. Júlíus var þá kominn í skólann (skutlaði honum) og Eyrún fékk bara að heimsækja pabba í vinnuna á meðan. Heimilislæknirinn sem tók á móti okkur Láru sagði hana vera með ofnæmisútbrot og hún fékk ofnæmislyf við því. OK það átti að duga, eða þar til á föstudeginum að hún kom heim verri en hún hafði verið deginum áður SVO þá fór ég með hana upp á Barnaspítala. Þar var einnig töluverð bið enda svínaflensan allsráðandi. Við biðum í einn og hálfan tíma í biðstofu sem var búið að skipta í tvennt eftir því hvort börnin væru með flensueinkenni eða ekki, útbrot teljast ekki sem flensueinkenni. Þegar röðin kom að okkur var Lára búin að dansa um alla biðstofuna bæði á gólfinu og uppi í sófanum. Að syngja og tralla telst heldur ekki vera flensueinkenni. Nú að lokum fékk hún steraskammt til þess að kýla niður ofnæmisviðbrögðin og okkur sagt að halda áfram að gefa henni ofnæmislyfið. End of story og við fórum heim um átta leytið.
Þriðjudaginn 20. október héldum við Eyrún svo upp á vikubrot Júlíusar með því að fara með hana til heimilislæknis, hún var komin með eyrnabólgu. Já, Eyrún fékk í eyrun. En þar sem hún var ekki með hita þá þurfti ekki að setja hana á pensillín, aðeins verkjalyf fyrir hana. Það jafnaði sig sem betur fer bara strax.
Miðvikudaginn 21. október fór ég svo með Júlíus á endurkomudeild þar sem það þurfti að fjarlægja sauma úr puttanum. Kom þá í ljós að hann hafði brotið gypsið og puttinn því vaxið vitlaust saman. Við þurftum því að flytja okkur niður á slysó þar sem ákveðið var að hann þyrfti að fara í aðgerð daginn eftir.
Fimmtudaginn 22. október fórum við Júlíus þá á Innskriftarmiðstöðina í Fossvogi (IMF!!) og svo biðum við á barnaskurðdeildinni þar til hann var kallaður inn í aðgerð, það var um fjögur leytið. Aðgerðin tók hálftíma og tókst bara nokkuð vel að rétta brotið og var hann settur í plastspelku í þetta skiptið. Ég spurði skurðlækninn hvort að það væru einhverjar líkur á því að Júlíusi tækist að brjóta þessa spelku og taldi hann það mjög ólíklegt, sagði eitthvað á þá leið að þá væri drengurinn ansi öflugur. Ég hefði getað sagt honum að Júlíus væri það einmitt, öflugur, enda braut hann spelkuna 2 dögum seinna! Í það skiptið fékk Óli að fara með honum á slysó og þar var sett gyps-bót á puttann. Því miður, samkvæmt röntgenmynd, er brotið ekki alveg rétt en næstum því. Sennilegast jafnar beinið sig en kannski verður puttinn alltaf pínu spes á Júlíusi. Við sjáum til eftir tvær vikur hvernig puttinn lítur út þá.
Já stundum mætti ætla að verið væri að prófa mann, reyna á þolmörkin. Alla vega þá er mér sama þótt við sleppum við svínaflensuna.
Tenglar
Hugrenningar
Aðallega bull
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.