1.11.2011 | 13:11
Athyglisbrestur
Athygli er skrítið fyrirbæri. Hvernig getur á maður að geta haft athyglina á einum hlut í einu en samt geta gert marga hluti í einu, hafa yfirsýn. Verður maður þá ekki að geta skipt athyglinni niður á hvern hlut og því haft litla athygli á hverjum hlut eða er hún svo "fljótandi" að maður geti skipt á milli án þess að taka eftir því að maður hafi sleppt athyglinni af einum hlut til að einbeita sér að öðrum?
Hvernig getur manni þá brostið athyglin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2011 | 09:13
Setið heima
Í dag er ég heima með Eyrúnu Jónu þar sem dagmamman er í fríi.
Við höfum dundað okkur við ýmislegt í morgun, fengið okkur kornflex og múslí með mjólk og kaffi og kremkex í eftirrétt. Við höfum nú ekki sama háttinn á við kexátið, ég tek bita en Eyrún rífur kexið í sundur og skefur kremið af eins og góðu barni sæmir. Þegar ég lauk svo við kaffibollan var sú litla ekki sein að grípa bollan minn og ná allra síðasta dropanum af kaffinu úr bollanum.
Að því loknu settumst við inn í stofu, ég kíkti á fésið og tölvupóstinn, skipulagði næstu viku sem er síðasta vikan mín á geðkúrsinum og Eyrún ruggaði Chuchu í ferða-dúkku-rúminu. Chuchu er sko dúkkan hennar Láru Drafnar. Á meðan ég vinn syngur Eyrún Afi minn og amma mín, "Afi minn og ammi minn, afi minn og ammi minn" og líka Afi minn fór á honum Rauð, "Afi minn, afi minn, afi minn a bæi bæi, afi minn a syku syku".
Tónelsk dama.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2010 | 18:14
Barnalæknisfræði
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2010 | 09:34
Skringilegur heimur
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2010 | 12:44
Læknadagar 2010
Atrial fibrillation - medisínsk vs. kírúrgísk meðferð
Gengur illa með gáttatif,
gamalt hjartatetur.
Sjáum hvort skurður eða uppáskrif
segist virka betur.
Kynfæri kvenna, hvað er eðlilegt?
Okkar framtíð óviss er.
Enginn veit hvað kemur.
Að treysta' á æðri mátt minn er
að gangast við mér ... öðru fremur.
Lyfjanotkun á Íslandi 2010. Hvert stefnum við?
Hér safnað er saman gögnum
sem geymd eru í stafrænum lögnum.
Grunnurinn næstum sprunginn er,
um fólkið við vitum mest allt hér.
En hvað má héraðslæknir nota,
þegar hann þarf í sjúkling að pota?
Ekkert! Segir illþokkuð nefnd.
Ekkert! Segir Persónuvernd.
The problems with screening
Læknar standa fyrir leik:
"Leitum að biomarker".
Sjúklingurinn er í steik.
Sýking? Eitrun? Cancer?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.11.2009 | 23:12
Endurupplifanir
Eins og mínir nánustu vita af þá varð ég hundveik fyrr á árinu ... hundveik, réttara sagt var ég nær dauða en lífi. Ég náði mér nefnilega í gamaldags barnsfararsótt. Já, barnsfararsótt, svona eins og konur dóu umvörpum úr fyrir 1800. Eins og einn vinur minn orðaði það þá minntist hann þessa aðeins úr annálum. Hvað um það ég lifði af. Sennilegast vegna þess að enginn sagði mér hvað ég var veik og þess vegna tórði ég af gömlum vana.
Nú er dóttir mín orðin 8 mánaða og því 7 mánuðir síðan ég kom heim af spítalanum. Mér finnst í dag eins og það sé heil eilífð síðan, eins og ég hafi verið veik í öðru lífi því í dag þá kenni ég mér einskis meins, nema þá einbeitingarskorts en það er jú eitthvað sem vonandi jafnar sig á næstu mánuðum. Þess vegna er svo sérstakt þegar ég er minnt á það hversu vel ég hef náð mér. Af og til þá uppgötva ég allt í einu að ég get gert eitthvað sem ég gat ekki fyrstu mánuðina eftir veikindin. Hlutir eins og farið niður á hækjur mér og staðið upp aftur af sjálfsdáðum þar sem vöðvarnir mínir voru svo veikir og ég kraftlítil að ég bara gat ekki staðið upp aftur. Mánuði eftir var ég útkeyrð bara af því að sitja í stól í klukkutíma. Ég fékk harðsperrur í bakið við það eitt að sitja upprétt!
Þessar upplifanir eru til þess eins að gleðja mig, ég hef náð svo langt. Öðru máli gegnir þegar ég er minnt á líðan mína áður en ég fór inn á spítala, á meðan sýkingin var að brjóta niður allt mitt þrek. Atriði eins og niðurgangur, magakveisa... og í dag Resorb. Óli keypti nefnilega Resorb fyrir mig daginn áður en ég lagðist inn af því að ég nærðist ekkert, drakk eins mikið vatn og ég gat en svitnaði náttúrulega ofboðslega þegar ég náði að kýla niður hitann. Svo Óli keypti Resorb til að blanda í vatnið mitt svo ég myndi ekki fá óráð. Þessar minningar kitla í magann, ég verð sorgmædd og pínu hrædd ... því þá man ég hve stutt er á milli lífs og dauða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2009 | 22:10
Eymd er valkostur
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2009 | 14:33
Þvílík vika
Þriðjudagurinn 13. október hófst bara eins og aðrir virkir dagar hjá mér, ég vaknaði kl. hálf átta, vakti Júlíus, gaf honum morgunverð, gerði hann klárann í skólann og kom honum í skólarútuna. Síðan vaknaði Eyrún litla og knúsuðumst við fram að hádegislúrinum. Þá settist ég niður og dundaði mér við að hekla þar til Júlíus kom heim með skólarútunni um tvö leytið. Þá eru menn orðnir SVO SVANGIR að ekki þýðir að hlýða yfir lesturinn fyrr en búið er að fæða drenginn. ÞÁ er lesið og það þrisvar! :) Enda er hann orðinn rosalega duglegur að lesa.
Eftir lesturinn var Eyrún vöknuð og Júlíus búinn að læra svo hann fékk að fara út að leika sér með nokkrum drengjum og einni dömu (auðvitað, alltaf ein stelpa með öllum strákunum). Nú undanfarna daga hafa þau verið í byggingarframkvæmdum í garðinum, verið að reisa lítinn kofa. Tveir veggir úr litlum múrsteinum, einn er girðing (sem er utan um leikvöll í miðjum garðinum) og eitt hornið er ösp. Ekki hægt að segja annað en að krakkarnir nýti það sem til er! Nú svo var komið þak úr einhverjum spýtum sem krakkarnir höfðu safnað saman og lagt yfir grunninn milli girðingarinnar, annars vegar og asparinnar, hins vegar (ekki mjög stabílt en dugði í blíðskaparveðri). Nú verð ég að taka það fram að kofinn var ansi flottur hjá þeim en því miður þvarr byggingarefnið þar sem krakkarnir "fundu" ekki fleiri litla hellusteina svo nú voru góð ráð dýr. Tveir eldri drengjanna dóu þó ekki ráðalausir og fundu grjót sem þeir bogruðust með að byggingarsvæðinu, nú gátu framkvæmdirnar haldið áfram en því miður réðu ekki yngri strákarnir jafn vel við grjótið og þegar Júlíus og annar drengur voru að rogast með steinanna þá missir hinn drengurinn takið og hnullungurinn lendir ofan á fingrinum hans Júlíusar. Nú hefði maður búist við því að heyra öskur en nei, ekki Júlíus, hann kippir puttanum að sér segir strákunum að hann þurfi að fara inn og það er ekki fyrr en hann er kominn á efstu hæð að við heyrum í honum og er hann þá farinn að hágráta, enda puttinn kraminn. Einnig má þess geta að blóðslóðina mátti vel merkja á leið hans til okkar. Ég sá strax að puttinn var brotinn og vorum við Júlíus komin upp á slysó innan við 10 mínútum frá því slysið varð, þetta var um sjö leytið um kvöldið en vegna anna á slysó var brotið ekki rétt fyrr en rúmum þremur tímum seinna. Við Júlíus komum heim rétt fyrir miðnætti og fingurinn í gypsi. Sem betur fer var þetta hægri vísifingur þar sem Júlíus er örvhentur.
Nú á meðan Júlíus var að jafna sig á miðvikudegi var Lára Dröfn að ná sér í ofnæmisútbrot sem reyndar uppgötvuðust ekki fyrr en á fimmtudagsmorgni og var hún þá öll orðin rauðblettótt, á höndum, fótum, kvið og síðum, þegar hún var verst var hún einnig með roða í andliti. Nú þá var ekki annað hægt en að fara með hana á Heilsugæsluna. Júlíus var þá kominn í skólann (skutlaði honum) og Eyrún fékk bara að heimsækja pabba í vinnuna á meðan. Heimilislæknirinn sem tók á móti okkur Láru sagði hana vera með ofnæmisútbrot og hún fékk ofnæmislyf við því. OK það átti að duga, eða þar til á föstudeginum að hún kom heim verri en hún hafði verið deginum áður SVO þá fór ég með hana upp á Barnaspítala. Þar var einnig töluverð bið enda svínaflensan allsráðandi. Við biðum í einn og hálfan tíma í biðstofu sem var búið að skipta í tvennt eftir því hvort börnin væru með flensueinkenni eða ekki, útbrot teljast ekki sem flensueinkenni. Þegar röðin kom að okkur var Lára búin að dansa um alla biðstofuna bæði á gólfinu og uppi í sófanum. Að syngja og tralla telst heldur ekki vera flensueinkenni. Nú að lokum fékk hún steraskammt til þess að kýla niður ofnæmisviðbrögðin og okkur sagt að halda áfram að gefa henni ofnæmislyfið. End of story og við fórum heim um átta leytið.
Þriðjudaginn 20. október héldum við Eyrún svo upp á vikubrot Júlíusar með því að fara með hana til heimilislæknis, hún var komin með eyrnabólgu. Já, Eyrún fékk í eyrun. En þar sem hún var ekki með hita þá þurfti ekki að setja hana á pensillín, aðeins verkjalyf fyrir hana. Það jafnaði sig sem betur fer bara strax.
Miðvikudaginn 21. október fór ég svo með Júlíus á endurkomudeild þar sem það þurfti að fjarlægja sauma úr puttanum. Kom þá í ljós að hann hafði brotið gypsið og puttinn því vaxið vitlaust saman. Við þurftum því að flytja okkur niður á slysó þar sem ákveðið var að hann þyrfti að fara í aðgerð daginn eftir.
Fimmtudaginn 22. október fórum við Júlíus þá á Innskriftarmiðstöðina í Fossvogi (IMF!!) og svo biðum við á barnaskurðdeildinni þar til hann var kallaður inn í aðgerð, það var um fjögur leytið. Aðgerðin tók hálftíma og tókst bara nokkuð vel að rétta brotið og var hann settur í plastspelku í þetta skiptið. Ég spurði skurðlækninn hvort að það væru einhverjar líkur á því að Júlíusi tækist að brjóta þessa spelku og taldi hann það mjög ólíklegt, sagði eitthvað á þá leið að þá væri drengurinn ansi öflugur. Ég hefði getað sagt honum að Júlíus væri það einmitt, öflugur, enda braut hann spelkuna 2 dögum seinna! Í það skiptið fékk Óli að fara með honum á slysó og þar var sett gyps-bót á puttann. Því miður, samkvæmt röntgenmynd, er brotið ekki alveg rétt en næstum því. Sennilegast jafnar beinið sig en kannski verður puttinn alltaf pínu spes á Júlíusi. Við sjáum til eftir tvær vikur hvernig puttinn lítur út þá.
Já stundum mætti ætla að verið væri að prófa mann, reyna á þolmörkin. Alla vega þá er mér sama þótt við sleppum við svínaflensuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2009 | 12:02
Esjan
Nú ber svo við að ég er farin að arka upp í hlíðar Esju einu sinni í viku, ef veður leyfir. Takmarkið er að ná upp á 3ju stöð í hvert sinn og setjast svo niður og eta hádegisverð með besta útsýnið á höfuðborgarsvæðinu. Nú hefur mér tekist þetta ætlunarverk mitt tvisvar sinnum á undanförnum mánuði og kem ég endurnærð niður af fjallinu.
Ég sest niður á stein einn sem er við "stoppustöðina" og sötra kaffi, narta í samloku og dáist að útsýninu. Friðsældin er yndisleg, svalt loftið endurnærandi og svo getur maður dundað sér við að telja hve marga göngustafi maður sér á þessu korteri sem kaffitíminn tekur. Þeir koma nú reyndar í pörum svo betra er að telja 2, 4, 6, 8.... en 1, 2, 3, 4.... Ég held það séu fleiri sem ganga um göngustígana þarna en fyrir utan heimili mitt og ég bý á Stúdentagörðunum! Ekki misskilja mig ég er alls ekkert að agnúast út í það að fólk sé duglegt að ganga upp í Esjuhlíðar, mér finnst það yndislegt hve margir eru duglegir að hreyfa sig og vita af þessari gersemd sem Esjan er okkur bæjarbúum.
Fyrir nokkrum árum fannst mér það fólk sem "stundar" Esjuna vera frekar þreytt og klisjukennt, eitthvað svo 2007 í "rétta" gallanum og með allar græjur (þar á meðal með rétta göngufélagann). En í dag þá finnst mér "þetta" fólk vera mitt fólk og að auki eru ennþá nokkrir sem fara í göngu í heimaprjónuðum peysum, húfum, vettlingum og jafnvel í stígvélum!
Þegar ég sit í kaffipásunni minni þá fylgist ég með þessu duglega fólki sem gengur lengra en ég, upp og niður, upp og niður, upp og niður endalaust. Og ég brosi út að eyrum ég er svo stolt af þeim. Það eina sem ég hef áhyggjur af eru þeir sem virðast aðeins líta á göngutúrinn sem verkefni, spretta upp og svo niður aftur bara til að fylla í kvótann. Flestir staldra þó við þegar takmarkinu er náð og njóta árangursins.
Dægurmál | Breytt 6.10.2009 kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2009 | 11:40
Vá hvað það er langt síðan ég bloggaði síðast
Svona er það þegar lífið tekur völdin af manni og maður týnir sjálfum sér.
Ég hef upplifað heilan helling á þessum tíma og þá misgott en fyrir vikið hef ég þroskast töluvert.
Sýnishorn af því sem mig hefur hent á þessum tíma:
- við Óli eignuðumst aðra dóttur og eigum nú þrjú börn
- ég náði að vinna mig út úr kvíðakasti sem ég hafði verið undir hælinn á í 3 ár
- ég kynntist Al-anon og er að vinna eftir tólf sporakerfinu þar og er núna nýbúin að ljúka öðru sporinu, er núna loksins að læra að haga mér eins og fullorðin manneskja í samskiptum við aðra og einnig að átta mig á því að ég ber ekki ábyrgð á öllum heiminum, ég ber aftur á móti ábyrgð á mínu lífi og enginn annar en ég!
- ég fékk lífshættulega sýkingu og dó næstum því ... það opnaði augun mín fyrir því hvað það er sem skiptir mig máli í mínu lífi og hvað það er stutt og hverfullt, maður veit aldrei hvenær maður fer og því er lífið of stutt til þess að vera í fýlu út í aðra eða með almennt vesen!
Svo það hefur ýmislegt á daga mína drifið síðan ég bloggaði hér síðast og langar mig mjög til að halda áfram að skrifa og miðla af reynslu minni, styrk og von (eins og við gerum í Al-anon) til ykkar sem kannski dettið niður á þessi skrif ... annars er ég hætt að bíða eftir því að vera uppgötvaður rithöfundur á netinu ;)
Jæja, meira var það svo sem ekki í bili, ætla að bæta nýjum myndum inn á þráðinn og setja mér það markmið að blogga alla vega einu sinni í viku.
Lifið heil
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Hugrenningar
Aðallega bull
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 8149
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar