Í erilborg

Nú eru prófin búin í bili og þá er ekkert annað í stöðunni en að demba sér á bólakaf í rannsóknarvinnuna ... og svona til að byggja upp frekari spenning hjá sér er einmitt fínt að taka að sér fulla vinnu með W00t auk þess að reka heimili (og mann Tounge ) og hugsa um og veita tveimur börnum ótakmarkaða athygli sína. Oh hvað það er gott að vera kona Kissing

Sýklahernaður

Eftir verklega sýklafræði síðasta haust hnoðaðist saman ein vísa

 

Á meðan einn með búbbulínu

    yfir frumum dvelur,

skríða undan skáphúddinu

    skelfdar Herpes verur.

Annar þá með alkóhól

    á þær stekkur grófur.

Sá þriðji grípur tæki' og tól

    og tæklar þær sem óður.

Veiklaðar og viðutan

    veirurnar flagga hvítum.

Þær settar voru í sýnisglas,

    svekktar yfirlitum.
 


Kvíðaskrímslið

Hann teygir höndina að kviðnum á mér, fer inn í kviðarholið mitt og grípur um iðrin mín með stálhnefanum sínum og heldur fast. Ég get ekkert hreyft mig, ef ég fer fram á við þá ýtast iðrin aftur í bak og ef ég bakka þá tosast þau út. Ég stend því kyrr ... grafkyrr og hugsa um það hvernig ég geti sloppið. Hugsa og hugsa .... hugsa aðeins meira og að lokum, hugsa ég. Það er það eina sem ég get gert, það er að velta vöngum yfir stöðu minni og allt það sem ég gæti gert til að losna, en þeim mun meira sem ég hugsa um að gera eitthvað ... þeim mun fastar heldur hann um iðrin mín, læsir stálhnefanum fastar.

Prófstress

Undanfarna mánuði þá hef ég haft aðstöðu til þess að læra og lesa í ákveðnu lesaðstöðu-herbergi hér á Görðunum. Eins og gengur og gerist þá nota þeir einstaklingar sem hafa tryggt sér borð, aðstöðuna mismikið. Ég hef samt tekið eftir ákveðnu munstri hjá nemendum þegar nálgast próftímabil. Út október og fram í miðjan nóvember, hefði getað farið fram villt kynlíf í salnum og enginn hefði tekið eftir því, það var enginn á svæðinu. Þegar nálgaðist nóvemberlok þá hefði aftur á móti verið farið fram á þrísom. Í byrjun desember hefði þetta getað farið út í allsherjar svall og svínerí að hætti Rómverja.

Þið sem misstuð af líkingunni hafið ekki tekið nógu vel eftir í sögutímum í menntaskóla, hvað þá lesið Ástrík!

Ég varð því pínu rugluð í kollinum þegar, í byrjun janúar, fólk streymdi inn í lestrarsalinn á öllum tímum sólarhringsins og gerði það ótrúlegasta, það lærði. Í byrjun janúar! Hefur heimurinn gengið að göflunum?

Þá frétti ég það að sjúkraprófin hjá sumum deildum háskólans hafa víst verið færð fram í janúar í stað þess að halda þau í ágúst. 


Vinátta

Vinátta er skringilegt fyrirbæri. Af öllum þeim sem maður umgengst dagsdaglega eru ekki margir sem maður myndi kalla vini sína í dýpstu merkingu orðsins, kunningjar já, félagar já en vinir?

En svo eru það þeir sem maður kallar vini sína og manni þykir mjög vænt um. Ég á nokkra vini, fullt af kunningjum og félögum en aðeins nokkra vini. Það merkilega við þessa vini mína er að aðeins örfáir eru í meira en mánaðarlegum samskiptum við mig. Ég hef t.d. ekki heyrt af einni bestu vinkonu minni í áraraðir, samt þykir mér alltaf jafn vænt um hana og ég efast ekkert um að það sama gildir um hana. Kannski ég ætti bara að leita hana uppi. Fletta henni upp í símaskránni og slá á þráðinn. Ég er alveg viss um það að þegar ég heyri næst í henni þá verður það eins og við hefðum síðast haft samband í gær! 


Göngutúr um Miklatún

Um daginn var ég minnt á það hve margir griðastaðir eru til staðar í þessari erilsömu borg.

Ég bý í Vesturbænum og er í Háskóla Íslands. Af þessu leiðir að ég geng mjög oft í skólann þar sem það tekur mun styttri tíma en að ræsa bifreið aðeins til þess að lenda í morgunumferð og leita að bílastæði. Stystu leiðirnar eru vanalega meðfram götum borgarinnar þar sem gangstéttirnar eru oftast staðsettar. Þetta verður til þess að maður fer ekki á mis við hið uppörvandi öngþveiti morgunumferðarinnar, þar sem of margir bílstjórar þurfa sterkt kaffi til þess að geta tekist á við daginn og eru vanalega of seinir til þess að geta fengið sér kaffibolla áður en lagt er af stað í vinnuna.

Vanalega þegar maður þarf að komast leiðar sinna á sem skemmstum tíma þá er maður búinn að finna sína leið frá A til B og heldur sig við hana, svona til að spara tíma, og ef maður keyrir og hefur ekki haft tíma til þess að fá sér kaffisopa áður en lagt var af stað, þá getum maður komist á leiðarenda án þess að reyna of mikið á heilabúið - setur í "auto-pilot". Þetta fyrirkomulag verður þó til þess að maður fer oft á mis við skemmtilegri staði borgarinnar, perlurnar.

Þar til í gær var Miklatún ekkert nema trjáröð meðfram Miklubrautinni fyrir mér. Eða þá í mesta lagi túnið í kringum Kjarvalsstaði. Ég var algjörlega búin að gleyma því hve stór þessi grasblettur var eða hversu fjölbreyttur hann er. Fullt af leiktækjum fyrir stóra og smáa, áhugaverð listaverk til þess að góna á í vetrarsólinni, og næstum því kyrrð. Ég stytti mér leið í gegnum garðinn í gær og mér leið allt í einu svo miklu betur, þrátt fyrir það að ég heyrði stanslaust suðið í bílunum í kring þá var yfirgnæfði friðurinn inni á þessum griðastað erilinn í borginni fyrir utan. Já mér leið ekki eins og þetta væri hluti af borginni, þetta var meira eins og töfragarður. Mér fannst mér kippt út úr hinu daglega lífi og mig langaði ekkert frekar en að leggjast niður og stara upp í himingeyminn.

Þetta er nýi uppáhaldsstaðurinn minn í borginni - núna förum við fjölskyldan í göngutúra á Miklatún í stað þess að labba meðfram sjónum eða niður við tjörnina. Þetta er kosturinn við það að ganga í stað þess að keyra, maður uppgötvar (eða endur-uppgötvar) svo margt.


Toys R' Us

Jæja loksins er komið að því. Ég hef beðið eftir þessu augnabliki frá því að ég var 10 ára og með My Litle Pony æði. Toys R' Us dótabúð á Íslandi.

Hvað felur þetta í sér. Erum við loksins að fá ódýrt dót fyrir börnin okkar hér heima? Og hvað er ódýrt, hér heima? Eigum við eftir að geta skroppið út í dótabúð og keypt dúkkúhús á þremur hæðum með rafmagni í svo hægt sé að kveikja á ljósunum í herbergjunum og "setja" þvottavélina í gang og spila lög í útvarpinu á sama verði og einn Playmobil kall í Leikbæ? Eða verður umrætt hús aðeins 500 krónum ódýrara en í Hagkaup?

Auglýsingin er eitthvað á þessa leið: "... með besta íslenska verðið."

Hvað þýðir þetta?


Verkleg veirufræði

Úff þegar kemur að því að sýna fagi áhuga og sökkva sér í lesturinn þá er stundum betra að slaka aðeins á, ýta námsefninu frá sér og hugleiða.
 Adenóveirusýking

Mér tókst það að gleyma mér algjörlega í lestrinum og sökkti mér í verklega hluta veirufræðinnar, ákvað að kynnast veirusýkingum aðeins nánar - er nú samt ekki alveg viss um að ég hafi "ákveðið" það sjálf en...

Ég komst að eftirfarandi niðurstöðu um augnsýkingar af völdum adenóveira:

Ái, það er vont - mann langar til þess að klóra úr sér augun eftir fyrstu tvo sólarhringana og inn á milli kláðans þá er eins og stráð hefði verið muldu gleri í augun.

Mæli ekki með því að sökkva sér OF djúpt í námsefnið 


Fyrsta ástin

Mér varð hugsað til fyrsta bílsins míns núna í morgun. Þetta var BMW 316 '88 árgerð. Dökk-grá-sanseraður á lit. Inni í honum var allt dökk-grátt eða svart og á góðum sumardegi var hægt að grilla kjúkling inni í honum. Ég elskaði þennan bíl. Af hverju losaði ég mig við hann?  Jú, sambandið gekk bara ekki lengur upp.

Í fyrstu var þetta eintóm hamingja. Við fórum í margar ferðir saman og peningar virtust ekki vera nokkur fyrirstaða, ef annað okkar var þyrst þá var því reddað. Hvort heldur var um skreppitúr aðeins út fyrir bæinn að ræða eða bara rúntað um miðborgina þá voru þetta æðislegar og afslappandi ferðir. Ég naut þess að gefa aðeins inn og hann var alltaf að gefa mér aðeins undir fótinn. Himnenskt. En svo fór að síga á ógæfuhliðina. Hann hætti að spara sig í drykkjunni og þegar við lenntum í smá ógöngum fjárhagslega þá fór virkilega að sjá á honum. Hann fór að ryðga og áklæðið að slitna. Pústið fór að gefa sig og fyrr en varði var ég farin að ganga og taka strætó í stað þess að fara með honum í bíltúr. Að endingu þá varð ég að slíta sambandinu.

Þetta var sárt en nauðsynlegt skref fyrir okkur bæði til þess að við gætum notið okkar, í öðrum samböndum. Hann fór til ungs manns sem lofaði að byggja hann upp aftur og ég tók saman við nískupúka þar sem ég var komin með nóg af drykkju gamla félaga míns.

Minn nýji félagi var Dihatsu Cuore 2001, MR 987. Hann var sparneytinn og snyrtilegur, silfurlitaður og furðu snarpur, en okkar samband var ekki gert til þess að endast. Hann var aðeins skref í átt að betra sambandi, huggunaraðili. Við náðum aldrei saman. Hann bjó ekki yfir þeirri ástríðu sem minn gamli félagi hafði gert. Skreppitúrar voru tilgangslausir, engin unun var til staðar - og þótt útsýnið væri jafn fallegt og ávallt, þá var hávaðinn töluvert meiri. Hann var bara ekki nógu .... stór, kraftmikill, fallegur.

Núna er ég í sambandi við kraftmikinn, fallegan og fágaðan félaga - Ford Mondeo Ghia, vínrauður, DD 380. 2003 að mig minnir. En samt stend ég mig að því að dagdreyma um minn fyrsta, minn eina, sálufélaga og ég vellti fyrir mér hvar hann er.  Hvar ertu JÖ 582, ég sakna þín og fyrirgefðu mér að ég skyldi ekki geta hugsað betur um þig, ætti ég nokkrar milllur þá myndi ég leita að þér og koma þér aftur í það ástand sem þér sæmir ... ef ég bara ætti nokkrar millur.


Þjóðarsál

Í kvöldfréttum í gær var talað um Ítali og eitt af þeirra þjóðareinkennum, að láta ekki bjóða sér hluti eins og verðhækkun. Þegar verð á pasta var hækkað voru landsmenn hvattir til þess að sniðganga pastavörur í smá tíma. Ekki var verið að eggja þá til þess að hætta að borða pasta, enda væri það óðs manns æði, heldur aðeins láta finna fyrir sér og kaupa minna af því en ella, alla vega í smá tíma.

Þegar gjöld voru hækkuð í Frakklandi um árið þá létu vöruflutningamenn finna vel fyrir sér og lokuðu vegum í landinu.

Þegar virðisaukaskatturinn er lækkaður hér á landi og okkur sagt að það muni skila sér til landans í formi verðlækkana á matvörum - og það stenst ekki - þá tuðum við, lítum hvert á annað og látum drekkja okkur í útskýringum frá hinum og þessum er græða á okkur, um að þetta sé jú allt svo flókið og í raun færist peningarnir bara yfir á einhverja aðra af því að .... himininn er blár. Og hvað gerum við, tuðum yfir kaffibolla við okkar nánustu og á vinnustöðum og vinnum svo bara meira, hættum við að safna fyrir heimsreisunni þegar við verðum 60. og sættum okkur við miðnætursól í Viðey þegar við verðum 70. í staðinn! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þóra Margrét Júlíusdóttir
Þóra Margrét Júlíusdóttir

Ég er með BA gráðu í sálfræði og er núna á 4ða ári í læknisfræði.

Ég hef unnið við hin ýmsu störf, í byggingariðnaðir, landbúnaði, við skúringar, í aðhlynningu auk þess sem ég hef verið að kynnast læknastörfum innan spítalanna undanfarin ár.

Ég er pólítískur húmanisti, algjörlega óflokksbundin enda áskil ég mér þeim rétti að skipta um skoðun eftir að hafa ráðfært mig við mína samvisku og mér vitrari aðila.

Færsluflokkar

Bloggvinir

Nýjustu myndir

  • veik hjá mömmu
  • tilbúin
  • stundin okkar
  • smjatt
  • seint um kvöld

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband